Blankheit í kreppunni.

 Ég ætlaði upp á Akranes í gær. En það var nú hægara sagt en gert. Er hálf blankur þessa dagana og átti ekki fyrir gangagjöldum. Ekki átti ég heldur inneign á símanum þannig að ég ákvað að keyra á milli kunningjanna til að skrapa saman gangafé. Reyndar á ég ekki marga vini en marga kunningja og ég þurfti að keyra  vítt og breitt til að ná í þúsund kall. Einhverra hluta vegna virðist enginn eiga pening á lausu þegar ég er annars vegar. “ Nammidagur í dag og nýbúinn að láta krakkana fá síðasta fimmarann”. Flest svörin voru á þessa leið en margir virtust ekki vera heima þó gluggatjöldin væru á hreyfingu. En loksins tókst mér að ná í annan þúsundkall og gat lagt af stað.

   Það var því syngjandi og kátur maður sem ók um Mosó í átt að göngunum. Væntingar um skemmtilegan fund handan ganga, jók ferðina og trallaði ég upp í Kollafjörð. Og það lá að, löggan í leyni við malargryfjuna og ég tekinn fyrir of hraðan akstur. Þrátt saklaust og gæðalegt útlit fram yfir flesta þá fékk ég sekt upp á 50 þúsund kall. Það sljákkaði aðeins í mér við þetta og fór ég rólega í göngin. Þegar ég var kominn góðan spöl inn, þá fór bíllinn að hiksta og það drapst á honum. Nú voru góð ráð dýr. Ég leit á mælana og sá að ég var bensínlaus. Í göngunum. Fínn staður eða hitt þó heldur. Ég rak bílinn í hlutlausan og lét renna í útskot neðarlega og lagði þar. Ég hafði keyrt það mikið um í leit að pening að ég hafði ekki gætt að bensíneign og því fór sem fór. Þarna sat ég ,bensínlaus, með síma án inneignar, sekt í vasanum og hættur að syngja. Í dágóða stund sat ég og vissi ekki hvað gera skyldi. Þá kom þar dökkur pallbíll og var þar starfsmaður sem sagði mér að vera rólegur. “Það er dráttarbíll á leiðinni”.  “Dráttarbíll? Ég á ekki fyrir því, getur þú ekki lánað mér síma, þá get ég reddað bensíni”?  “ Það stendur ekki til boða” sagði kallinn og sinnti mér í engu. Dráttarbíllinn kom fljótlega og án málalenginga var bíllinn dreginn í eitthvað port í bænum og fékk ég náðarsamlegast að fljóta með. Ætlaði ég þar með að redda bensíni en var sagt að það kostaði 12 þúsund að leysa bílinn út og ekkert múður. Nú var ekkert annað að gera en labba heim því ekki átti ég þann pening né annan. 

   Það tók ekki nema klukkutíma að komast heim í rigningunni og var ég orðinn gegnblautur og þreyttur. Heitt bað og kaffi, næst á dagskrá. En ekki aldeilis. Ég hafði gleymt húslyklunum í bílnum og komst ekki inn. Það tók mig þó nokkurn tíma að finna einhvern sem tímdi að hringja í lásakall fyrir mig. Hann kom seint um síðir og opnaði. “6 þúsund kall” sagði hann. “Heyrðu,  ég er búinn að lenda í smá veseni í dag og er ekki með veskið. Má ég borga þér á mánudaginn”?  “ Það gengur ekki “ sagði hann og skellti í lás. Nú var þrekið búið og ég kjökraði: “En ef ég læt þig fá símann minn í pant”?  Hann hefur líklega vorkennt mér því hann tók símann, opnaði þegjandi og fór. 

   Loksins komst ég inn og úr blautum fötunum. Hvern andskotann er maður að flækjast á eftir einhverjum kellingum upp í Borgafjörð? Og svo er kannski ekkert í þær varið. Maður er kannski settur í eitthvað vesen og þær geta verið forljótar. Ég fer aldrei í þessi göng aftur, þið getið átt þau fyrir mér. Þessi dagur er búinn að vera kostnaðarsamur og ég á ekki fyrir sektum og skuldum og allt er ómögulegt. Hyldýpi framundan.    Ég var að ganga frá buxunum og fann þá 2 þúsund kallinn sem ég hafði gleymt. Hvílík heppni. Það birti til. Nú get ég fengið mér hamborgara og spilað í kassanum fyrir afganginn. Ég vinn örugglega fyrir skuldunum. Það er ekki svo slæmt að vera til. “Ég er frjáls eins og fuglinn, flogið næstum ég gæti. Mér er ekkert til ama flest nú eykur mér kæti……………..

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marta smarta

Hamingjan hjálpi mér, þvílík svaðilför.  Þetta segir manni bara að leita ekki langt yfir skammt, það hljóta að vera einhverjar kelingar nú eða kallar í manns heimabyggð.

Marta smarta, 17.1.2010 kl. 14:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband