Magaspeglun.

Magaspeglun.

Nú er maður kominn á þann aldur að lækna fer maður að þekkja með nafni. Ég hef ekki verið tíður gestur hjá þeim en það hefur þó komið fyrir. Og nú sendi heimilisdoksinn mig í magaspeglun suður í Hafnarfjörð. Ég mætti þar á réttum tíma en bevís laus reyndar. Ekki getur maður munað eftir öllu. Eftir pirrandi bið í tæpan klukkutíma, í veröld læknanna þar sem virðing fyrir tíma annarra er engin, er loks komið að mér. Ég er sendur upp á aðra hæð og þar tekur á móti mér gullfalleg hjúkka, ekki degi eldri en fimmtug. “Þetta er ekki alslæmt” hugsa ég og er öllu skapbetri. Mér líst bara vel á hana og fylgi henni inn í herbergi þarna á ganginum. Hún lýsir þessari aðgerð og næ ég mestu af því sem hún segir. Er reyndar með dálitla glýju í augum því ég er alltaf svag fyrir fallegum konum. Þess vegna tek ég ekki eftir öllu sem hún segir. “Taktu af þér þarna á bakvið hurðina og leggstu á bekkinn undir teppið” sagði hún og fór eitthvað að bardúsa með nálar og plástra og sneri í mig baki. Ég fór úr jakkanum og hengdi hann upp. Setti skóna að veggnum og buxurnar og skyrtuna á stól sem var þarna. Þarna stóð ég vandræðalegur smá stund, hún enn að taka til sprautu og eitthvað drasl. Jæja, eftir smá hik fór ég úr nærbuxunum og sokkunum, setti þetta snyrtilega á stólinn og skellti mér á bekkinn. “ Úff, mikið assgoti er lakið kalt” sagði ég við hjúkkubeibið.  Hún sneri sér við og horfði undrandi á mig stundarkorn. Sagði svo “ þú áttir nú bara að fara úr jakkanum og skónum”.

   

       Er nema von að maður sé kominn með magasár?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband