28.1.2007 | 19:50
Kolaportið
Gúmoren.
Ég skrapp í Kolaportið í dag með konuna. Þegar svo er þá kíki ég yfirleitt í kaffi á meðan, því ekki vantar mig neitt þar. Það er ætíð líflegt á kaffistofunni og mannfólksins úrval má sjá þar. Finnst mér gaman að sitja þarna og virða fyrir mér mannlífið og kannski hitta einhvern sem ég kannast við. Upp úr kl. hálf tvö sá ég að maður var að stússast í hljóðfærum þarna og þekkti þar Þorvald Halldórsson. Fann ég fljótt að eitthvað var í vændum og heyrði svo að það væri eins konar helgistund með presti og alles. Þar sem ég hafði ekki verið þarna áður við svona athöfn , þá sat ég áfram.Í forspili athafnar spilaði Þorvaldur og söng. Byrjaði á "Á sjó", svo "Hún er svo sæt" og " Suður um höfin". Þetta var mér nýtt, þar sem ég hef í huga mér prelúdíur og fúgur við helgiathafnir. En Þorvaldur skilaði þessu vel enda vanur maður og klukkan tvö tóku prestarnir Þorvaldur Víðir og Ragnheiður Sverrisdóttir við. Ragnheiður prédikaði og farið var með fyrirbænir, sem hafði fyrir athöfn verið spurt um hjá kaffigestum. Það sem ég er ekki kirkjurækinn og fer þar sjaldan, þá fannst mér skrýtið að sitja með kaffi og sígó og hlusta á séra Þorvald Víði tala um "þetta helga samfélag í litskrúðugu umhverfi" og fleira. Mér leið bara ágætlega þarna er Þorvaldur hinn söng og spilaði gleðisálma milli atriða. Rétt áður en ég fór kom séra Ragnheiður og smurði mér í lófa og blessaði. Þetta var ágæt eftirmiðdagsstund og er ég ekki frá því að ég hafi farið betri út.
Athugasemdir
Ég er sannarlega á því að smurningurinn hafi gert þér gott, það er spurning hvort þú þarft bara ekki að fara oftar!
Dr.Björn (IP-tala skráð) 30.1.2007 kl. 00:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.