Fýla?

 

Gúmoren.

Bjöllunni var hringt hjá mér um miðnætti eitt laugardagskvöld um daginn. Ég skellti mér í sloppinn og fór til dyra. Við inngang næstu íbúðar hálfhékk á hurðarhúni konan sem þar býr,og hafði hún greinilega drukkið eitthvað annað en malt. "Égg geteggi oppnaðð" sagði hún og bað mig liðsinnis. Ég ,fyrrum skáti, stökk til og opnaði fyrir hana og hélt að þar með væri samtalinu lokið. Þessi kona er sómasamkær bankastarfsmær og sé ég hana nokkrum sinni á ári en ekki til samræðu nema á húsfundum og þekki hana því lítið. En hún var ekki hætt, kallinn ekki heima og hún alein í kotinu. "Koddu og talaðu vimmmig". Þetta er boldangskvenmaður á mínum aldri og höfðinu hærri en ég, svo að mér leist ekki vel á það. Ég var reyndar dálítið upp með mér, því ég veit að ég lít skratti vel út í hvítum sokkum og á bláum slopp. "Koddu stríðnispúkinn þinn" sagði hún en ég kvaddi hana kurteislega og bauð góða nótt.

   Stríðnispúki. Hvernig hún veit það af okkar litlu kynnum er ég ekki alveg með á hreinu en líklega er ég það. Ég man er ég var í sveit hjá móðurbróður mínum á Kirkjubóli í Korpudal 1966. Þetta var fyrir tíma "leikjanámskeiða" og ekki var borgað fyrir mann, heldur var maður matvinnungur. Þar vorum við nokkrir krakkar,vinnandi sveitastörf og annað er til féll. Oftast var samkomulagið gott en ávallt eitthver stríðni með. Var þá fundinn einhver punktur, sem hamrað var á þar til klagað var. Ekki var ég sem bestur í þessum leik, enda afskaplega stríðinn. En væri mér strítt,tók ég því afar illa og kunni illa að meta þessa vonsku gagnvart"mér".                                        

   Einn daginn tók þó steininn úr og fékk ég nóg af þessu, "ef þið hættið ekki  þá er ég farinn". Þau hættu ekki og ég fór. Lagði af stað heim, vonsvikinn yfir örlögum mínum. "Ég skal aldrei koma aftur" hugsaði ég leiður þar sem ég gekk ofan bæja,í miðjum hlíðum fjalla á leið minni til Ísafjarðar. Vildi ég ekki að til mín sæist við þetta strok. Var reyndar að kíkja eftir leitarflokkum sem aldrei komu. Er á Breiðadalsheiði var komið,  þurfti ég að halda mig við veginn og í neðanverðri Kinn þá stoppaði Alli í Björnsbúð á Skodanum og tók mig uppí. Var hann dálítið hissa á ferðum mínum þar en  ég fékk að sitja í, þögull, niður í Hafnarstræti. Heldur var skrýtinn svipur á móður minni er ég bankaði uppá, með húfuna, í gráu lopapeysunni og tárvota hvarma. Auðvitað beygði maður af, útaf þessu óréttlæti og einelti krakkanna. Ég fékk að vera heima í 2-3 daga og var sendur svo til baka, því leitt er að spilla þeirri kyrrð sem krakkalaust heimili er. Þegar þangað kom, var mér tekið með kostum og kynjum, líklega vegna þess að ég kom með eitthvað af nammi og það sem meira var, fullan kassa af bókum. Var ég ákaflega vinsæll um sinn en líklegt er að sótt hafi í fyrra horf, þó að ekki hafi skorist í odda sem fyrr segir.

  Ekki aflagðist hjá mér stríðni við þetta og jafn illa tók ég henni alveg framyfir þrítugt. Hin síðar ár hefur ekki minnkað hjá mér galgopaháttur en stríðni tek ég orðið vel. Tel ég það merki um þroska að fara ekki í fýlu þó að stundum fylgi félögunum einhver ertni. Ég hef nefnilega ekki tíma til að fara í fýlu lengur, er orðinn það gamall, en þegar  að einhver fer í fýlu við mig út af skrifum eða því sem ég segi eða segi ekki, þá finnst mér verst að vita ekki af því.

P.S.   Ég er enn að spá í hvernig þetta hefði endað, ef að ég hefði farið og talað við kellinguna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er merki um þroska að fara ekki í fýlu,en þetta er nú það mest notaða stjórnunartæki sem til er,og déskoti er ég búin að (of)nota það í gegnum tíðina.En sem betur fer er maður búin að læra það,að það er bara virðingaleysi gagnvart sjálfum sér og þeim sem maður dílar við að geta ekki talað um hlutina(kafbátahernaður) Hvernig heldurur að það hefði farið með KONUNUNNI !!,hún var nú ekki að drekka malt,jú þið hefðuð kanski geta skemmt ykku smá.Daginn eftir ,,,,sorry ég var ekki að drekka malt,og tek ekki ábyrgð á því sem ég seigi og geri  kv Rannveig.

ps Góð sagan um strokið.

Rannveig (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 17:25

2 identicon

Svo hefði verið hægt að kalla það Tæknileg mistök hefðuru farið inn með konunni

Rannveig (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 17:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband