11.3.2007 | 09:33
Vindgnauð og leiðindi
Það er alltaf blessuð blíðan!!
Ég var að hugsa í morgun um þjóðskáldin okkar og ljóð þeirra.Mörg þeirra hafa sett saman kvæði og ljóð um fegurð þessa lands og eru mörg þeirra nokkuð góð. Fjalla þau einatt um fegurð þessa lands, fjöllin, árnar, fossana og fleira í þeim dúr. Að mæra landið virðist vera þeim sameiginlegt, mörgum. Ég var ógurlega þjóðernisstoltur hér áður og man að ekki mátti slökkva á sjónvarpinu á meðan þjóðsöngurinn var spilaður í lok dagskrár, annaðhvort fyrir eða eftir. Ég var svo stoltur af Íslandi að ég hefði spurt Ringó, eins og Ólína Þ., hefði ég hitt hann: How do you like Iceland?". Ég hefði reyndar leyft honum að komast úr úr flugvélinni fyrst. En þetta með þjóðskáldin, ég held að annaðhvort hafi þeir verið velkenndir þegar ort var vel eða annarskonar lyfjaðir. Kannski þeir hafi verið erlendis, einmana og þjáðst af heimþrá. "Skín við sólu Skagafjörður, Ísland ögrum skorið, Ísland er landið, Í faðmi fjalla blárra" og þessu líkt. Þetta hefur eflaust allt verið ort á þessum fjórum eða fimm góðviðrisdögum sem koma hér ár hvert, því þá er ættjarðarástin í hámarki og leiðindi hinna 360 daganna gleymd. Ég verð reyndar ákaflega glaður þegar gott er veður og myndi vilja hafa það oftar. En, þetta er skítasker sem við búum á og á meðan ég á ekki fyrir því að fara, þá verð ég víst að vera hér.
Jæja, mér líður betur núna.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.