20.3.2008 | 07:41
Slys.
Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn en hér er hugleiðing sem að ég skrifaði á aðra síðu:
Eins og margir vita lenti ég í slysi s.l. sunnudag. Ekki er hægt að segja annað en að ég hafi verið heppinn að meiðast ekki meira en raun varð á. Aðstæður til að hjóla voru með besta móti og farin var leið sem að keyrð er af flestum mótorhjólamönnum hér á svæðinu þegar hjólað er. En eins og alltaf er sagt: slysin gera ekki boð á undan sér og sannaðist það hér. Þar sem við vorum fjórir á leið vestur Miklubraut fyrir neðan Ártúnsbrekku og var ég fyrstur, sé ég þá allt í einu bíl vera að snúa við og bregður mér all nokkuð að sjá hann. Ekki var mikill tími til að hugsa um hvað ætti að gera, en sá ég að til hvorugrar hliðar gat ég sveigt, þannig að þegar ég lenti á bílnum var hugsunin ekki:hvað verður um krómið, heldur: næstum ekki neitt. Það sem að ég man, er þegar ég lendi með hjálminn á framrúðunni og svo næst þegar ég ligg fyrir aftan bílinn, lemstraður og brotinn á vinstri upphandlegg. Það sem að fer í gegnum huga manns á meðan beðið er eftir sjúkrabíl er ansi margt. Ef að ég hefði gert þetta og ef að ég hefði gert hitt......En þetta hafði gerst og ekkert gat breytt því. Þarna hafði ég að mestu vit á að liggja kyrr og bíða en fann fljótlega að ég gat hreyft alla útlimi fyrir utan vinstri handlegg. Varð ég afskaplega ánægður og montinn en ákvað samt að liggja kyrr þangað til að mér væri sagt annað.Þegar sjúkrabíllinn kom var tekið á málum af festu og kunnáttu og þýddi lítið fyrir mig að segja að ég gæti hreyft þetta og hitt."Við sjáum um þetta og þú hreyfir þig ekki". Eftir á sé ég, að þegar sjúkraflutningamenn koma á slysstað þá vita þeir ekki um meiðsli og verða alltaf að gera ráð fyrir hinu versta í svona tilfellum og fara því að öllu með gát.Er ég þeim afskaplega þakklátur fyrir þeirra störf, þrátt fyrir að þeir hafi klippt sundur nýlegan jakkann minn og skyrtuna úr Mótormax sem að ég fékk í jólagjöf. En þegar á allt er litið þá er það klæðnaðurinn sem að skiptir öllu máli þegar flugið er tekið þessa vegalengd. Var ég nýbúinn að loka hjálminum þegar áreksturinn verður og nokkuð er líklegt að kjálkinn á mér væri illa farinn ef að ekki hefði svo verið. Hef ég verið mikið fyrir að keyra með hjálminn opinn hingað til, hvað sem verður síðar. Varðandi gallann, þá var ég í þröngum smekkbuxum og jakka, bæði úr leðri og fyrir utan brot og teygð liðbönd á einum fingri var ekki ein einasta skinnfleiðra. Það má því segja að galli og hjálmur hafi komið í veg fyrir að meiðsl yrðu eins mikil og þeir sem voru vitni, héldu. Í dag er ég þakklátur fyrir að ekki fór verr og vona að þetta slys verði mér og öðrum til umhugsunar um það hvernig við högum okkur í umferðinni, bæði á hjóli og bíl.
Athugasemdir
Æi kallinn minn, ég las þetta með öndina í hálsinum. Mikið erum við heppin að ekki fór miklu, miklu verr! Ég er ekki í vafa um að góður útbúnaður þinn (lokaður hjálmur og þykkt leður) bjargaði þér frá örkumlun, ef ekki dauða í þessu tilfelli.
Förum vel með lífið okkar, það er fleirum dýrmætt en okkur sjálfum.
Helga Guðrún Eiríksdóttir, 21.3.2008 kl. 01:23
Takk fyrir.
Yngvi Högnason, 21.3.2008 kl. 07:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.