25.4.2008 | 22:25
Trúin.
Konan sem að ég bý með fæddist til kaþólsku.Þetta er afskaplega ljúf og vinnusöm kona og kaþólskan truflar hana ekki mikið. En samt eru hér myndir af heilagri Maríu á veggjum ,krossar og fleira í þeim dúr sem hefur með kaþólskuna að gera. Ekki eru kirkjuferðir að taka frá henni tíma eða mér en þó hef ég farið með henni einu sinni eða svo og hafði bara gaman af. Það þykir reyndar ekki gott hjá kaþólskum að kona skuli búa með manni í óvígðri sambúð og þess vegna hefur hún í gegnum tíðina,þegar kirkjunnar fólk hefur komið heimsókn til eftirlits, verið fegin því að ég skuli ekki hafa verið heima á þeim tíma. Hingað hafa komið nunnur og prestar,kaþólsk,sem koma til uppörvunar sóknarbörnum, færandi bæklinga og vígt vatn á plastflöskum undan límonaði. Konan er lukkuleg með að kirkjunnar þjónar sjái ekki að hún býr í óvígðri sambúð og eftir að þeir eru farnir verður hún nokkuð trúuð um sinn. Kemur þá oft með vígða vatnið þegar ég er kominn uppí og steinkar mig í bak og fyrir eins og mamma gerði þegar hún var að stífa skyrturnar fyrir pabba hér áður fyrr. Þegar búið er að væta mann aðeins þá er maður signdur og eflaust tekur hún nokkrar Maríubænir í hljóði líka, allavega sofna ég vel eftir þetta. En svo rjátlast þetta af henni og eftir smá tíma þarf ég ekki annað en að minnast á messu eða páfann, þá byrjar hún aftur að signa mig og þá hætti ég að minnast á messuferðir.
Það er nú dálítið kaþólskt að skrifta svona á blogginu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.