Í ræktinni.

 

Ég var að koma úr ræktinni og er dálítið þreyttur núna. Er nefnilega ekki vanur að fara eftir vinnu og lenda í erfiðum aðstæðum. Á morgnana þegar ég hef verið, hefur verið fátt um fína drætti hvað kvenfólkið varðar. Í raun er það kvenfólk sem að þarf á ræktinni að halda. En seinni part dags er annað upp á teningnum. Reyndar er eitthvað af konum sem þurfa á ræktinni að halda en á milli geta leynst nokkurs konar gyðjur. Svo var í dag og þess vegna er ég þreyttur. Ég sá hana út undan mér þegar ég kom í salinn, á hlaupabrettinu, án áreynslu með þokka gyðjunnar. Við hlið hennar var laust svo að ég renndi mér þangað og setti í gang.Byrjaði rólega en bætti svo smá í og fljótlega hlupum við þarna , þögul og samstíga. Sá ég fljótt að hún hafði hlaupið góða stund og  greinilegt  að hún er í góðu formi. Þar sem ekki er gott að draga inn magann og hlaupa á meðan þá þreyttist ég fljótlega. En ekki lét ég bera á því og ákvað að gefa ekkert eftir. Sá ég í speglinum að við vorum sem eitt. Þetta minnti á Heathcliff og Catherine í Wuthering Heights eftir Bronté, nema við vorum samsíða.Verst að hún skyldi ekki vita af því. En mikið andskoti hvað hún gat hlaupið lengi.Mér var farið að sortna aðeins fyrir augum og hætti brátt að sjá spegilinn fyrir framan.Ég hægði þess vegna aðeins á því púlsinn var kominn í 180 slög og ég orðinn lafmóður. Reyndi að láta ekki bera á því og stillti brettið á "cool down". Í sama mund slekkur hún á hjá sér og fer að tækjunum til átaka,án þess að blása úr nös. Ég kunni ekki við að fara beint á eftir henni og klára því tímann og reyni að ná andanum áður en ég fylgi henni eftir.Þessar þrjár mínútur sem að við hlupum saman fannst mér sem að við værum ein í salnum en svo var víst ekki. Út um allt voru feitir og sveittir kallar að glápa á hana án þess að vita hvers hún var. Geta þessir bjánar ekki horft á herfurnar sínar eða hvað? En hvað um það,þegar ég var búinn að hvíla mig um stund þá fór ég að tækjunum og fann tæki sem var beint á móti því sem að hún var að æfa í. Ég er vanur að gera hverja æfingu tíu til fimmtán sinnum en gerði aðeins oftar þarna því hún var oft að spjalla við einhverja sem var að spilla fyrir okkur. Í sumum tækjunum gerði ég æfingar allt að fjörutíu sinnum og það í mörgum tækjum sem að ég hef aldrei farið í fyrr. Það er líklega þess vegna sem að ég er svona þreyttur núna. Eftir æfingarnar þá fórum við á mottuna til að teygja.Og þar sem við lágum þarna eftir hamaganginn,næstum hlið við hlið,þá var ég næstum búinn að bjóða henni sígó en gætti að mér,slík var upplifunin. En að lokinni einni teygju hjá mér var hún allt í einu horfin án þess að ég tæki eftir og það án þess að kveðja. Næst þegar ég sé hana þarna þá ætla ég að heilsa henni,athuga hvort hún sjái mig og láta ekki bera mikið á því að ég glápi dálítið. Og endilega vil ég muna líka að missa ekki hökuna niður á bringu þegar ég sé hana.Mér er sagt að ekki líti ég gáfulega út þannig.
  En fallegir verða draumarnir í nótt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Óskars

innlitskvitt

skemmtileg saga hjá þér - nú skal fara eftir vinnu í ræktina  alls ekki bjóða uppá sígó - prófaður frekar einn latte

Sigrún Óskars, 3.12.2008 kl. 21:34

2 Smámynd: Rannveig H

Þetta er náttúrulega draumur sérhvers manns,Það væri flott hjá þér að taka mynd af Hallanum með þér næst, það er nú hægt að falla fyrir minna.

Rannveig H, 4.12.2008 kl. 10:59

3 Smámynd: Yngvi Högnason

Það er rétt Rannveig,það eru fleiri konur en þú sem kikna í hnjáliðum þegar ég renni hjá á Hallanum.

Yngvi Högnason, 4.12.2008 kl. 12:16

4 Smámynd: Rannveig H

Leður og Halli  og konur kikna.

Rannveig H, 4.12.2008 kl. 14:06

5 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Þú ert rakinn snillingur!  En mikið óskaplega er ég kát með að vera ekki gift þér...  Setningin með ósjálfráða eftirsmókinn er perla. Sérstaklega þegar haft er í huga hversu langt er síðan þú hættir að reykja.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 5.12.2008 kl. 23:37

6 Smámynd: Yngvi Högnason

Takk fyrir innlitið stúlkur.En Helga Guðrún,að vera kát með að vera ekki gift mér er bara afneitun. Sendu inn kvenkostalýsingu og ég skal setja hana í röðina,og ef illa fer fer með gyðjuna þá athuga ég málið.

Yngvi Högnason, 6.12.2008 kl. 09:57

7 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Of seint, Einar varð á undan. Og það voru gallarnir mínir sem hann kolféll fyrir.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 6.12.2008 kl. 10:24

8 Smámynd: Yngvi Högnason

Of seint? Einar hvað? ,ég ansa ekki svona vitleysu.

Yngvi Högnason, 6.12.2008 kl. 22:07

9 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 7.12.2008 kl. 11:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband