17.2.2010 | 17:41
Það er allt í lagi með mig.
Ég skrapp til læknis í dag. Ég var ekkert slappur en það er svona ýmislegt sem þarfa að kanna. Það er alltaf upplífgandi að bíða á svona stað þar sem helsta lesefnið eru rit á borð við : Öldrun og elli, Iðjuþjálfinn og bæklingar um ellilífeyri. Eins og ég hafi eitthvað með það að gera. En ég þurfti ekki að bíða lengi og var kominn inn hjá doksa snarlega. Þetta er vörpulegur maður á aldur við mig, snaggaralegur í tilsvörum og nennir engu kjaftæði.Jæja, hvernig hefurðu það Ólafur? Ég er bara fínn sagði ég en er með svona andþyngsli þegar ég fer að sofa. Og hvernig lýsir það sér spyr doksi.
Sko, það fer allt að snúast í höfðinu þegar ég hugsa og svo þegar ég leggst á vinstri hliðina, þá fer allt í mínus. Heldurðu að þetta geti verið hjartað? spurði ég. Farðu úr skyrtunni, ég ætla að hlusta þig sagði kallinn. Hlustar mig í bak og fyrir, bankar í bakið og er með eitthvað helvítis pot í magann. Segir ekki orð og mælir blóðþrýstinginn. 90 yfir ... hann muldrar eitthvað og mælir aftur. Heldurðu að það sé hjartað? spyr ég. Eða er þetta eitthvað annað, á ég stutt eftir? Ég sé ekkert athugavert við þig, en sendi þig í magaspeglun og lungnaröntgen til öryggis sagði doksi. Magaspeglun, huh, hjá Jónínu Ben. kannski, til hvers? hugsaði ég en sagði eins og þú vilt. Ég er kannski svona hægri sinnaður að ég get ekki andað ef ég ligg á vinstri hliðinni? spurði ég. Nei, það er ekki það sagði Livingstone og dæsti. Ertu búinn að breyta um mataræði, reyna eitthvað á þig eða ertu kominn í eitthvað kellingastand? Kellingastand? Hvað heldur maðurinn að ég sé. Ég hef aðeins verið í ræktinni og borða lítið kjöt þessa dagana sagði ég. Er þetta ekki hjartað? spurði ég aftur. Dr. Dreamy glápti á mig og sagði Þú ferð í þessar rannsóknir en ég held að það sé ekkert að þér. Þú ert eins og ástsjúkur unglingur, það eru öll einkenni sem benda til þess. Það er ekki nema von að maður nenni varla til þessara kalla sem enga samúð sýna þegar þarf. En, það er nú hjartveiki í ættinni minni og .. Dr. Dreamy greip fram í
Blóðþrýstingurinn er alveg í þokkalegu lagi hjá þér, hjartslátturinn fínn og þú myndir þola Víagra í tugatali með svona hjarta sagði hann og lét mig fá tilvísun á magaspeglun. Ha? Víagra sagði ég og veðraðist allur upp. geturðu kannski skrifað upp á svoleiðis fyrir mig? Vinur minn bað mig um að redda þessu fyrir sig fyrst ég var að fara til þín. Það ætti að vera hægt sagði Dr. Dreamy og miðað við þína hæð, þá brýturðu hverja töflu í 4 parta og tekur einn hluta klukkutíma áður. Ég skal segja honum það sagði ég og tók við lyfseðlinum. Ég þakkaði fyrir mig og sagði: "vinur minn verður ánægður með þetta". En mér fannst doksi horfa hálf glottandi á mig þegar ég sagði á leiðinni út: "Ég er orðinn nokkuð góður og fer bara seinna í þessar rannsóknir.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.