3.3.2010 | 13:22
Glæstar vonir.
Með blik í auga og kankvíst bros horfði hún á mig. Ég var að koma upp stigann úr ræktinni. Ég leit í kringum mig en sá að ég var einn, hún var að horfa til mín. Þetta var ein af gyðjunum í ræktinni sem gerir allt þetta puð einhvers virði. Mér hitnaði öllum, roðnaði og leit undan. En hún gekk til mín og sagði : Þú tekur aldeilis á því í þarna niðri, það er ekki nema von að þú sért orðinn svona massaður. Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið, því ekki eru þær vanar að líta til mín þessar gyðjur, hvað þá að spjalla. Maður gerir eins vel og maður getur hálf hvíslaði ég. Hún brosti eggjandi og sagði; Þú gerir það bara vel, það eru ekki margir jafn duglegir þarna eins og þú. Ég rétti úr mér og hresstist allur. Það væri nú gaman að spjalla aðeins við þig sagði hún og tekur undir handlegginn á mér það er að segja ef þú ert ekki upptekinn. Ég er búinn að vera á gyðjuveiðum alla ævi og þarna í fyrsta sinn í návígi þá stamaði ég ; Ha? ég? nei aldeilis ekki. Ég minnist ekki á að það er stjórnarfundur uppi í klúbb og strákarnir farnir að bíða. Þú kíkir kannski með mér heim og við spjöllum saman þar? Ég varð þurr í hálsinum og ætlaði að losa um bindið en var ekki með neitt og gat svo loksins stunið upp ; Komdu, ég er með bílinn hérna rétt fyrir utan. Ég gekk á undan henni og opnaði fyrir hana. Þegar við vorum komin skamman spöl sagði hún mér heimilisfangið. Þetta er nú ekki alveg í næstu götu en skítt með það, þetta er gyðja. Á leiðinni talaði hún um daginn og veginn eins og ekkert væri. Ég, allsendis óvanur svona konu, lagði ekki mikið til málanna og átti fullt í fangi með að horfa á á veginn fremur en hana. Öðru hvoru lagði hún hendi á lærið á mér, eflaust til áhersluauka og því var ég orðinn vongóður um náin kynni er heim væri komið. Sá fyrir mér hina æsilegustu atburði sem mig hafði einungis dreymt um hingað til. Er tilbúinn í hvað sem er og orðinn upptendraður og æstur þegar ég beygi inn í götuna hennar og legg bílnum við húsið. Ætlaði að snara mér úr bílnum til að fylgja henni inn þegar útidyrnar opnast og út kemur karlmaður. Ég horfi spyrjandi á hana og hún segir ; Þetta er maðurinn minn, takk fyrir skutlið.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.