24.2.2008 | 20:48
Árangur
Jæja, þá er maður búinn að vera í ræktinni í rúmar tvær vikur. Þetta hefur verið dálítið púl og hefur tekið á. Maður mætir á morgnana og oftast er sama fólkið á staðnum og var þar í gær. Þetta gengur út á að maður labbar á milli tækja og er smástund við hvert. Þessar tvær vikur hef ég aðallega verið í að teygja, hvíla mig og fara í pottinn á eftir. Ég fer eftir ákveðnu kerfi og veit að ekki má fara of geyst af stað því að þá getur maður ofreynt sig. Mér er búið að ganga rosalega vel og þegar að ég verð tilbúinn þá kveiki ég á göngubrettinu og set kannski hjólið í gang,læt ekki bara renna. Eins verður með þessi lyftitæki,ég er enn að spá í hvernig þetta er notað og fylgist með hvernig hinir gera. Það gengur nokkuð vel og er ég búinn að ná flestum grettunum hjá hinum og hef verið að æfa þær sérstaklega við spegilinn,því að mér sýnist þær skipta miklu máli. Svo get ég alltaf lyft einhverju seinna. En aðalatriðið er að mæta. Eftir allt púlið þá fer maður í sturtu og síðan í heita pottinn, enda getur maður ekki synt eina eða tvær ferðir, útkeyrður eftir allar gretturnar. Þegar farið er í sturturnar þá verður að passa sig að fara ekki í sturtuna sem að Halli notar alltaf og ekki má heldur sitja í pottinum þar sem Gústi er vanur að vera því þá verður hann afskaplega pirraður. Ég held að sumir af þessum köllum séu dálítið vanafastir.Mér kvíðir fyrir því að verða kall.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.