112.

 

"112, góðan dag".sagði stúlkurödd.
"Geturðu sent mér sjúkrabíl hingað upp í Breiðholt"? spurði ég.
"Hvert er heimilisfangið"? var spurt. Ég sagði henni það.
" Og hvað er að "?
"Ég er að deyja" sagði ég klökkur, eins allir verða í jarðarförinni minni.
"Deyja"? mér heyrist þú nú bara vera nokkuð hress" sagði stúlkan.
"Það er ekkert að marka"sagði ég, "mér er alveg skelfilega heitt og er alveg ofboðslega þreyttur".
"Ertu ekki bara með hitavellu" sagði stúlkan, "ertu búinn að mæla þig"?
"Mæla mig? Hverslags er þetta,trúir þú mér ekki"? sagði ég,heyrði hún ekki að ég lá banaleguna. Ég, sem að var búinn að gera allt klárt,taka úr lás svo sjúkrakallarnir kæmust inn og taka til kók til að hafa á leiðinni.
"Mældu þig og fáðu þér magnyl og þú verður orðinn góður í fyrramálið" sagði stúlkan og skellti á.
Svona kellingar! Ég skal sko sýna henni. Fór og fann mæli og mældi. Það var eins og ég vissi, ég var við dauðans dyr, 39,1. Við að sjá á mælinn þá versnaði mér öllum og það var rétt svo að ég gat hringt aftur.
"112, góðan dag" sagði stúlkurödd, það var ekki sú sama. "Get ég fengið að tala við karlmann, ég vil fá að tala við einhvern sem að skilur mig".
"Það eru bara kvenmenn á vakt" sagði stúlkan " hringdirðu áðan"?
"Já" sagði ég aumlega, "ég er rosalega veikur, með þrjátíu og níu eina, getið þið sótt mig"?
"Sækja þig? til hvers og hvert ætlarðu að fara"?
"Ég þarf að komast á spítala,þá er kannski hægt að bjarga mér" sagði ég og reisti mig upp í rúminu. "Hefur þú einhvern tíma orðið svona veik" sagði ég og var nú farið að þykkna í mér. "Heldur þú að fullfrískt fólk sé uppi í rúmi klukkan fjögur á daginn í svona veðri? Nei, það er bara dauðvona fólk" sagði ég.
"Þetta er einhver umgangspest sem að þú hefur gripið upp" sagði stúlkan "vertu bara uppí þangað til á morgun og þá verður þú orðinn betri".
"En er ekki öruggara að koma og athuga mig" sagði ég og var orðinn pirraður á skilningsleysi hennar.
"Hringdu á morgun ef að þér versnar" sagði hún og lagði á.
Ég átti ekki til orð yfir svona trakteringar.Það verður bið á því að ég hringi aftur í 112.

Ég ætla sko ekki að fara að gera þessum stelpum það til geðs að fara að drepast núna.Ef að maður væri ekki karlmaður og gæti ekki harkað af sér nokkrar banalegur, þá litist mér nú illa á ástandið í þessu þjóðfélagi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband