Alltaf í ræktinni.

 

Það er að bera í bakkafullan lækinn að skrifa um stjórnarskipti og ástandið í landinu svo ég sleppi því núna.Ég var að koma úr ræktinni (gott að skrifa um sjálfan sig,það er eitthvað sem maður þekkir) og er nýbúinn að uppgötva að þar er hjólatími sem gengur út á hamagang á hjóli. Þetta er kallað "spinning" og er helv... puð. Klukkutími eða svo í einu á útopnu. Ég hefði kannski ekki veitt þessu athygli ef ég hefði ekki séð gyðjuna sem ég sagði frá um daginn fara inn í annan sal þar sem þetta er stundað. Og þar með var ég kominn með áhuga á "spinning". Fyrst byrjaði ég að kíkja aðeins á þetta og sá að þetta var ekkert fyrir mig,lungnalausan manninn. Tveimur dögum seinna kíkti ég aftur og sá þarna fullt af fólki.Og hana. Ég stóð þarna í dyrunum og allt í einu horfði hún að mér og sagði: "Skal du ikke være med?" Ég horfði í kringum mig en sá engan í nánd og skildi þá að hún var að tala við mig."Gisp". Það kom aukaslag.Hún sá mig,talaði við mig og vissi að ég er til. Skítt með dönskuna,ég get allt. "Jeg kommer nu" sagði ég og vippaði mér inn í salinn og að næsta hjóli.Hún brosti við mér og ég fór að skoða þetta hjól eins og sá sem allt kann.Skellti mér á bak og fann að ég kunni ekki neitt.Einhver hlunkur sem hafði komist á milli okkar sýndi mér hvernig átti að stilla hjólið og var mér þá ekkert að vanbúnaði.Þjálfinn spilaði tónlist,nokkuð hátt, og skildist mér að hjóla ætti í einhverjum lotum,hægt og þungt,létt og hratt.Ég byrjaði rólega og virti fyrir mér fólkið í salnum. Það voru sextán á hjóli,á öllum aldri og í öllum þyngdum. Og hún var þarna skammt frá. Ekki vildi ég láta sjá að ég væri óvanur svo ég hjólaði sem hinir um stund. "Þyngja um hálfhring og standa" gólaði þjálfinn allt í einu.Tónlistin var hækkuð og allir stóðu upp. Hlunkurinn hafði sýnt mér hvernig átti að þyngja og gerði ég svo. Og stóð upp. Og settist. Ég sit þegar ég vil,hverskonar fíflagangur er þetta,er þér alveg sama um lærin á mér? Þjálfinn hafði hækkað í græjunum og heyrði ekki í mér,reyndar enginn annar heldur. Svo ég hjólaði bara rólega með,það þarf nú að anda líka. Ekki var heldur hægt að láta gyðjuna sjá að ég gæti þetta illa.Og enn var hjólað út í eitt,mismunandi tónlist eftir því hvað átti að æfa.Ef það var eitthvað erfitt þá fór ég af baki og lagaði pedala eða eitthvað annað.Ég ætlaði nú ekki að sprengja mig eins og blöðru.Eftir að hafa vanist þessu hjóli fór ég að líta í kringum mig betur og sá að fullt var af gellum þarna og hefði maður líklega gleymt sér í dagdraumum ef Stefán Hilmars hefði ekki veinað í græjunum ,"Sódóma"  og þjálfinn galað "þyngja". Eftir það var nú farið að síga á seinni hlutann og ég kominn í stuð. Hjólaði aftur á bak og áfram,brosti til hægri og vinstri og blés ekki úr nös.Enda búinn að stoppa og laga pedalann nokkrum sinnum. "Your simply the best" söng Tina og var ég henni sammála.Þetta endaði svo með rólegu vangalagi og teygjum.Svo þurfti að þrífa hjólin og æfði ég mig á dönskunni á meðan.Maður lætur ekki hanka sig á smáatriðunum."Solen skinner om dagen,hvad hedder du,er du fra Odense? Min söster laver gode frikadeller".
En ég þurfti ekki á því að halda því gyðjan hvarf á meðan. Ég nota það þá bara næst þegar hún talar við mig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Þú ert snillingur!  Og þú værir sjálfsagt sá fyrsti til að samþykkja það.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 28.1.2009 kl. 22:50

2 Smámynd: Helga Dögg

Held að þú þurfir að lesa meira um Bjørne-banden, Fedtmule og fleiri til að æfa þig í dönskunni...

Helga Dögg, 29.1.2009 kl. 11:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband