Glæstar vonir.

Með blik í auga og kankvíst bros horfði hún á mig. Ég var að koma upp stigann úr ræktinni. Ég leit í kringum mig en sá að ég var einn, hún var að horfa til mín. Þetta var ein af gyðjunum í ræktinni sem gerir allt þetta puð einhvers virði. Mér hitnaði öllum, roðnaði og leit undan. En hún gekk til mín og sagði :” Þú tekur aldeilis á því í þarna niðri, það er ekki nema von að þú sért orðinn svona massaður”. Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið, því ekki eru þær vanar að líta til mín þessar gyðjur, hvað þá að spjalla. “ Maður gerir eins vel og maður getur” hálf hvíslaði ég. Hún brosti eggjandi og sagði; “ Þú gerir það bara vel, það eru ekki margir jafn duglegir þarna eins og þú”. Ég rétti úr mér og hresstist allur. “Það væri nú gaman að spjalla aðeins við þig” sagði hún og tekur undir handlegginn á mér  “ það er að segja ef þú ert ekki upptekinn”. Ég er búinn að vera á gyðjuveiðum alla ævi og þarna í fyrsta sinn í návígi þá stamaði ég ; “ Ha? ég? nei aldeilis ekki”. Ég minnist ekki á að það er stjórnarfundur uppi í klúbb og strákarnir farnir að bíða. “ Þú kíkir kannski með mér heim og við spjöllum saman þar”?  Ég varð þurr í hálsinum og ætlaði að losa um bindið en var ekki með neitt og gat svo loksins stunið upp ; “ Komdu, ég er með bílinn hérna rétt fyrir utan”. Ég gekk á undan henni og opnaði fyrir hana. Þegar við vorum komin skamman spöl sagði hún mér heimilisfangið. Þetta er nú ekki alveg í næstu götu en skítt með það, þetta er gyðja. Á leiðinni talaði hún um daginn og veginn eins og ekkert væri. Ég, allsendis óvanur svona konu, lagði ekki mikið til málanna og átti fullt í fangi með að horfa á á veginn fremur en hana. Öðru hvoru lagði hún hendi á lærið á mér, eflaust til áhersluauka og því var ég orðinn vongóður um náin kynni er heim væri komið. Sá fyrir mér hina æsilegustu atburði sem mig hafði einungis dreymt um hingað til. Er tilbúinn í hvað sem er og orðinn upptendraður og æstur þegar ég beygi inn í götuna hennar og legg bílnum við húsið. Ætlaði að snara mér úr bílnum til að fylgja henni inn þegar útidyrnar opnast og út kemur karlmaður.  Ég horfi spyrjandi á hana og hún segir ; “ Þetta er maðurinn minn, takk fyrir skutlið”.   

Magaspeglun.

Magaspeglun.

Nú er maður kominn á þann aldur að lækna fer maður að þekkja með nafni. Ég hef ekki verið tíður gestur hjá þeim en það hefur þó komið fyrir. Og nú sendi heimilisdoksinn mig í magaspeglun suður í Hafnarfjörð. Ég mætti þar á réttum tíma en bevís laus reyndar. Ekki getur maður munað eftir öllu. Eftir pirrandi bið í tæpan klukkutíma, í veröld læknanna þar sem virðing fyrir tíma annarra er engin, er loks komið að mér. Ég er sendur upp á aðra hæð og þar tekur á móti mér gullfalleg hjúkka, ekki degi eldri en fimmtug. “Þetta er ekki alslæmt” hugsa ég og er öllu skapbetri. Mér líst bara vel á hana og fylgi henni inn í herbergi þarna á ganginum. Hún lýsir þessari aðgerð og næ ég mestu af því sem hún segir. Er reyndar með dálitla glýju í augum því ég er alltaf svag fyrir fallegum konum. Þess vegna tek ég ekki eftir öllu sem hún segir. “Taktu af þér þarna á bakvið hurðina og leggstu á bekkinn undir teppið” sagði hún og fór eitthvað að bardúsa með nálar og plástra og sneri í mig baki. Ég fór úr jakkanum og hengdi hann upp. Setti skóna að veggnum og buxurnar og skyrtuna á stól sem var þarna. Þarna stóð ég vandræðalegur smá stund, hún enn að taka til sprautu og eitthvað drasl. Jæja, eftir smá hik fór ég úr nærbuxunum og sokkunum, setti þetta snyrtilega á stólinn og skellti mér á bekkinn. “ Úff, mikið assgoti er lakið kalt” sagði ég við hjúkkubeibið.  Hún sneri sér við og horfði undrandi á mig stundarkorn. Sagði svo “ þú áttir nú bara að fara úr jakkanum og skónum”.

   

       Er nema von að maður sé kominn með magasár?


Misheppnaður spinningtími.

 

Ég var að koma úr ræktinni. Það var spinningtími og ætlaði að taka vel á. Ég hef skrifað áður um þetta og finnst mjög gaman að þessu. Yfirleitt er kvenfólk þarna í meirihluta og það gerir þetta öllu skemmtilegra. Núna vorum við ekki mörg til að byrja með og fallegar gyðjur mér á hvora hönd. Það er byrjað rólega, tónlistin hátt stillt og ég brosi fallega til stúlknanna. Vel mér eina í huganum þegar Bítla Paul syngur "All my loving",  ég loka augunum og læt mig dreyma. Hjóla í rólegheitum með draumadísinni á dönskum sveitavegi og strax kominn í spinning í höfðinu þegar ég er truflaður. Þegar ég opna augun eru þrír stórir fituhjassar að koma sér á hjólin fyrir framan. Hverskonar dónaskapur er þetta? Hér er maður rétt að komast í stuð og þá er allt eyðilagt fyrir manni. Ég reyni að segja þeim að þessi hjól séu upptekin en þeir horfa niður á mig og virða mig ekki viðlits. Svo hlamma þeir sér á hjólin og það er mikið að þeir brjóti ekki draslið. Hvað eru svona fitubollur að þvælast í spinning? Halda þeir að líkamsrækt sé fyrir svona fólk?  Hér er vel gert og fallegt fólk, ég og gyðjurnar og þá koma svona drjólar og stemmningin búin. Maður hugsar ekki meira um hopla på sengekanten núna. En áfram gengur, nýtt lag og ég er  orðinn pirraður. Læt nú ekki svona kakkalakka skemma fyrir mér. Nú sýni ég gellunum hvernig maður tekur svona kalla í nefið. Hjóla uppréttur og þyngi vel. Hjóla sitjandi og hratt. Svitna smávegis og  þreytist. En þær virðast ekki sjá mig. Þær góna bara á tröllin."Eru þeir þindarlausir þessir náungar"? Þeir virðast ekki þreytast neitt. Þessi fyrir framan mig sýnir pípararauf og næstum því tígrisauga þegar Eye of the tiger er undir. Það er nú ekki til að bæta skapið. Ég hægi aðeins á og fæ mér vatnssopa, lít á gyðjurnar og brosi.Það er ekki endurgoldið. Þær eru náttúrulega blindar og sjá ekkert athugavert við bollurnar. Það verður bið á rómantískum hjólatúr með þeim. Þær eru hvort sem er ekkert sérstakar.  Og þjálfinn galar : "fylgja taktinum, fylgja mér, herða á, hraðar". "Góði hættu þessu nöldri", hugsa ég. "Ég hjóla bara eins og mér sýnist". Fitubollurnar hjóla eins þeir fái borgað fyrir það og blása ekki úr nös. Það er orðið þungt í mér þegar Rammstein slær taktinn með "Du hast, du hast mich gefragt"  og ég er hættur að ná andanum, lærin brunnin af og þrekið búið. Ég hætti smá saman að hjóla og í lokaorði Rammstein "nein" fer ég.  Maður lætur ekki bjóða sér hvað sem er. 
     Það er ekki mér að kenna ef það verður vindlaust á bílum þeirra þegar þeir koma út.


Minna bull.

Það kemur fyrir að ekki er hægt að komast hjá því að heyra í þessum dreng og hans félögum þar sem maður á leið um. Er mér spurn, eftir að hafa lesið þennan stubb, hafa þessir drengir einkaleyfi á að "nauðga"? Þeir eru búnir að taka tónstigann og misþyrma honum svo illa að mér og mörgum öðrum verður óglatt, sem sjóveik værum, við það eitt að heyra þessa drengi nefnda. Í guðanna bænum, getum við fengið aðeins minna af bulli frá "blaðamönnum"?
mbl.is Breskt sjónvarp „nauðgar“ tónlist Sigur Rósar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er allt í lagi með mig.

Ég skrapp til læknis í dag. Ég var ekkert slappur en það er svona ýmislegt sem þarfa að kanna. Það er alltaf upplífgandi að bíða á svona stað þar sem helsta lesefnið eru rit á borð við : Öldrun og elli, Iðjuþjálfinn og bæklingar um ellilífeyri. Eins og ég hafi eitthvað með það að gera. En ég þurfti ekki að bíða lengi og var kominn inn hjá doksa snarlega. Þetta er vörpulegur maður á aldur við mig, snaggaralegur í tilsvörum og  nennir engu kjaftæði.”Jæja, hvernig hefurðu það Ólafur?” “ Ég er bara fínn “ sagði ég “en er með svona andþyngsli þegar ég fer að sofa”. “Og hvernig lýsir það sér“ spyr doksi.

“Sko, það fer allt að snúast í höfðinu þegar ég hugsa og svo þegar ég leggst á vinstri hliðina, þá fer allt í mínus. Heldurðu að þetta geti verið hjartað”? spurði ég. “ Farðu úr skyrtunni, ég ætla að hlusta þig” sagði kallinn. Hlustar mig í bak og fyrir, bankar í bakið og er með eitthvað helvítis pot í magann. Segir ekki orð og mælir blóðþrýstinginn. “90 yfir ...” hann muldrar eitthvað og mælir aftur. “Heldurðu að það sé hjartað”? spyr ég. “Eða er þetta eitthvað annað, á ég stutt eftir”?  “ Ég sé ekkert athugavert við þig, en sendi þig í magaspeglun og lungnaröntgen til öryggis” sagði doksi. Magaspeglun, huh, hjá Jónínu  Ben. kannski, til hvers? hugsaði ég en sagði “ eins og þú vilt”. “ Ég er kannski svona hægri sinnaður að ég get ekki andað ef ég ligg á vinstri hliðinni”? spurði ég. “ Nei, það er ekki það “ sagði Livingstone og dæsti. “ Ertu búinn að breyta um mataræði, reyna eitthvað á þig eða ertu kominn í eitthvað kellingastand?”  Kellingastand? Hvað heldur maðurinn að ég sé. “ Ég hef aðeins verið í ræktinni og borða lítið kjöt þessa dagana “ sagði ég. “ Er þetta ekki hjartað?” spurði ég aftur.  Dr. Dreamy glápti á mig og sagði “ Þú ferð í þessar rannsóknir en ég held að það sé ekkert að þér. Þú ert eins og ástsjúkur unglingur, það eru öll einkenni sem benda til þess”. Það er ekki nema von að maður nenni varla til þessara kalla sem enga samúð sýna þegar þarf. “ En, það er nú hjartveiki í ættinni minni og ..” Dr. Dreamy greip fram í

“Blóðþrýstingurinn er alveg í þokkalegu lagi hjá þér, hjartslátturinn fínn og þú myndir þola Víagra í tugatali með svona hjarta” sagði hann og lét mig fá tilvísun á magaspeglun. “ Ha? Víagra” sagði ég og veðraðist allur upp. “geturðu kannski skrifað upp á svoleiðis fyrir mig”? Vinur minn bað mig um að redda þessu fyrir sig fyrst ég var að fara til þín”. “Það ætti að vera hægt “ sagði Dr. Dreamy  “og miðað við þína hæð, þá brýturðu hverja töflu í 4 parta  og tekur einn hluta klukkutíma áður”. “Ég skal segja honum það” sagði ég og tók við lyfseðlinum. Ég þakkaði fyrir mig og sagði: "vinur minn verður ánægður með þetta". En mér fannst doksi horfa hálf glottandi á mig þegar ég sagði á leiðinni út: "Ég er orðinn nokkuð góður og fer bara seinna í þessar rannsóknir”.

Á dauða sínum eiga þeir von en ......

Í guðanna bænum, er það nokkur möguleiki að ekki verði sagt hvaðan þessi drengur er? Það er nógu slæmt álit sem útlendingar hafa á okkur að á sé bætandi.
mbl.is Ragnar sýnir The End á Sundance
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blankheit í kreppunni.

 Ég ætlaði upp á Akranes í gær. En það var nú hægara sagt en gert. Er hálf blankur þessa dagana og átti ekki fyrir gangagjöldum. Ekki átti ég heldur inneign á símanum þannig að ég ákvað að keyra á milli kunningjanna til að skrapa saman gangafé. Reyndar á ég ekki marga vini en marga kunningja og ég þurfti að keyra  vítt og breitt til að ná í þúsund kall. Einhverra hluta vegna virðist enginn eiga pening á lausu þegar ég er annars vegar. “ Nammidagur í dag og nýbúinn að láta krakkana fá síðasta fimmarann”. Flest svörin voru á þessa leið en margir virtust ekki vera heima þó gluggatjöldin væru á hreyfingu. En loksins tókst mér að ná í annan þúsundkall og gat lagt af stað.

   Það var því syngjandi og kátur maður sem ók um Mosó í átt að göngunum. Væntingar um skemmtilegan fund handan ganga, jók ferðina og trallaði ég upp í Kollafjörð. Og það lá að, löggan í leyni við malargryfjuna og ég tekinn fyrir of hraðan akstur. Þrátt saklaust og gæðalegt útlit fram yfir flesta þá fékk ég sekt upp á 50 þúsund kall. Það sljákkaði aðeins í mér við þetta og fór ég rólega í göngin. Þegar ég var kominn góðan spöl inn, þá fór bíllinn að hiksta og það drapst á honum. Nú voru góð ráð dýr. Ég leit á mælana og sá að ég var bensínlaus. Í göngunum. Fínn staður eða hitt þó heldur. Ég rak bílinn í hlutlausan og lét renna í útskot neðarlega og lagði þar. Ég hafði keyrt það mikið um í leit að pening að ég hafði ekki gætt að bensíneign og því fór sem fór. Þarna sat ég ,bensínlaus, með síma án inneignar, sekt í vasanum og hættur að syngja. Í dágóða stund sat ég og vissi ekki hvað gera skyldi. Þá kom þar dökkur pallbíll og var þar starfsmaður sem sagði mér að vera rólegur. “Það er dráttarbíll á leiðinni”.  “Dráttarbíll? Ég á ekki fyrir því, getur þú ekki lánað mér síma, þá get ég reddað bensíni”?  “ Það stendur ekki til boða” sagði kallinn og sinnti mér í engu. Dráttarbíllinn kom fljótlega og án málalenginga var bíllinn dreginn í eitthvað port í bænum og fékk ég náðarsamlegast að fljóta með. Ætlaði ég þar með að redda bensíni en var sagt að það kostaði 12 þúsund að leysa bílinn út og ekkert múður. Nú var ekkert annað að gera en labba heim því ekki átti ég þann pening né annan. 

   Það tók ekki nema klukkutíma að komast heim í rigningunni og var ég orðinn gegnblautur og þreyttur. Heitt bað og kaffi, næst á dagskrá. En ekki aldeilis. Ég hafði gleymt húslyklunum í bílnum og komst ekki inn. Það tók mig þó nokkurn tíma að finna einhvern sem tímdi að hringja í lásakall fyrir mig. Hann kom seint um síðir og opnaði. “6 þúsund kall” sagði hann. “Heyrðu,  ég er búinn að lenda í smá veseni í dag og er ekki með veskið. Má ég borga þér á mánudaginn”?  “ Það gengur ekki “ sagði hann og skellti í lás. Nú var þrekið búið og ég kjökraði: “En ef ég læt þig fá símann minn í pant”?  Hann hefur líklega vorkennt mér því hann tók símann, opnaði þegjandi og fór. 

   Loksins komst ég inn og úr blautum fötunum. Hvern andskotann er maður að flækjast á eftir einhverjum kellingum upp í Borgafjörð? Og svo er kannski ekkert í þær varið. Maður er kannski settur í eitthvað vesen og þær geta verið forljótar. Ég fer aldrei í þessi göng aftur, þið getið átt þau fyrir mér. Þessi dagur er búinn að vera kostnaðarsamur og ég á ekki fyrir sektum og skuldum og allt er ómögulegt. Hyldýpi framundan.    Ég var að ganga frá buxunum og fann þá 2 þúsund kallinn sem ég hafði gleymt. Hvílík heppni. Það birti til. Nú get ég fengið mér hamborgara og spilað í kassanum fyrir afganginn. Ég vinn örugglega fyrir skuldunum. Það er ekki svo slæmt að vera til. “Ég er frjáls eins og fuglinn, flogið næstum ég gæti. Mér er ekkert til ama flest nú eykur mér kæti……………..

Og hvað með það?

Það voru rúmlega 3,1 milljón Indverja sem áttu afmæli líka.


mbl.is Dorrit sextug á Indlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólk með góðan smekk.

Það fer um mann kjánahrollur þegar sést hverskonar ónefni fólk vill nota á börnin sín. En af því að maður er allur af vilja gerður til hjálpar þá eru hér nokkur til viðbótar,ekki síðri:
Dolla ,Dindill, Dóni, Fýla, Fretur, Bjáni, Brussa, Graddi, Meri, Hæna, Júði, Lúði, Pjalla, Róni, Stubbur, Svínka, Títa, Þurs, Æringi og Ölkær.

 

 

 


mbl.is Ísbjörn og Árvök í lagi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljósmynd frekar?

Ég get verið þrjóskur en ekki hef ég enn getað pælt mig í gegnum heila bók eftir þennan dreng, þrátt fyrir vilja. En lesið hef ég dóma og heyrt frá þeim hetjum sem hafa komist alla leið. Af því að dæma myndi líklega ljósmynd duga í stað kvikmyndar.
mbl.is Vilja kvikmynda bækur Sindra Freyssonar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband