Færsluflokkur: Bloggar

Gáfupési?

Mig langar til að vita af hverju það er frétt hvað ófriðarpésa úr Borgarfirði finnst.Fullt af Jónum og Gunnum ,sem ekki er vitnað í,finnst það sama en hafa gáfulegri lausnir en pésinn .
mbl.is Runólfur Ágústsson: Ríkisstjórnin er dauð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er hamingjan góður svefn?

Ég var eitthvað að spá í þetta Ísreaelsvesen og af hverju þetta er svona. Ég skil og þó kannski ekki, þetta pakk þarna austurfrá. Ég væri allavega rosalega pirraður og myndi láta illa við aðra ef að bibbinn á mér hefði verið gerður húfulaus að mér forspurðum.
    En gott kreppuráð. Ég keypti nokkurra nátta ótruflaðan svefn á fjörutíu og fimm krónur. Eyrnatappar. Gulir.Á fjörutíu og fimmkall. Hef aldrei prófað svona fyrr. Í gærkvöldi voru einhver leiðindi í sjóninu þegar ég kom upp í og svo ég skellti töppunum í og "voila", heyrði ekki múkk.Ég hef ekkert verið að viðra þessi kaup við "vatnsorgelið" sem sefur á næstu dýnu til að þurfa ekki að útskýra og þá kannski búa til leiðindi. Var reyndar búinn að ýja að hrotum fyrr,mjög fínlega."Já, ég skil ekki af hverju ég er nýbyrjuð á því" sagði hún þá.Nýbyrjuð,einmitt. Á svoleiðis stundum segir maður ekki orð. En í gærkvöldi var hún víst búin að tala heillengi við mig þegar ég fattaði það. "Ertu með eitthvað í eyrunum" heyrði ég að hún sagði þegar ég tók úr öðru megin. Ég kinkaði kolli. "Af hverju"? spurði hún. Ég hef verið meira fyrir heimilisfriðinn og góðan sörvis þannig að ég setti bara í eyrað aftur og sagði: "Það heyrist svo mikið í ísskápnum". 


Íslensk stórmennska.

Einu sinni steig fíll ofan á mauraþúfu. Það skipti engum togum að allir maurarnir skriðu upp eftir fílnum í hefndarhug. En fíllinn hristi sig og þeir hrundu allir af nema Emil. Hann hékk eftir. Allir hinir maurarnir steyttu hnefana á jörðu niðri og öskruðu: „Kyrkt'ann Emil, kyrkt'ann!“

Mér dettur þessi brandari alltaf í hug þegar sumir íslendingar halda að við séum eitthvað númer í alþjóðasamfélaginu. Fólk er alltaf að fá eitthvað mikilmennskubrjálæði,slær sér á brjóst og gólar:Ísland. Og fólk úti í heimi klappar okkur á skallann eins og Benny Hill gerði við litla kallinn og segir: Já já,þú mátt vera með lilli minn. Snýr sér svo við og hugsar: Iceland? er það ekki búð á Englandi?
    Endilega slitið stjórnmálasambandi við Ísrael,þeir hafa hvort sem ekki hugmynd um að það sé samband. Og er líklega bara alveg sama.
   Ég er orðinn svo ónæmur fyrir fréttum frá Gaza og umhverfi að ástandið þar snertir mig lítið. Er búinn að hlusta á og lesa fréttir þaðan síðan 1968 og er orðinn dauðleiður á þessu blaðri.Það hefur ekkert breyst á þessum fjörutíu árum.Og mun ekki breytast. Þess vegna vildi ég bara fá fréttir þaðan einu sinni í viku og þá um hvað margir væru eftir í hvoru liði.
   Það dóu 26500 börn í dag út um allan heim.(Sjá hér) Ég hef ekki heyrt af neinum mótmælum þar um.
     Kannski það sé bara á dagskrá seinna, það er svo margt til að mótmæla þessa dagana.


"Fokk".

Nú er kominn tími fyrir mig til að taka þátt í mótmælum niðri í bæ eða annars staðar. Mér hefur nefnilega ekki þótt þeir hingað til á Austurvelli vera málefnalegir. Um daginn misskildi ég eitthvað frá þeim og fór niður eftir, ætlaði að sjá eina dökkbláa en þá var það bara Dimmblár krakki.Ekki alveg fyrir minn smekk. En nú er annað uppi á teningnum,fólk með gáfuleg skilti og málefnin gusast úr ræðumönnum. Nú vil ég vera með,loksins er fólk farið að tala mál sem ég skil, kjarnyrta íslensku. "Helvítis fokking fokk".

Yfirgangur.

 

Þetta gengur ekki lengur, ekkert verið skrifað hér um langa hríð. Það hefur verið ýmislegt í gangi samt sem ekki er umtalsvert. Nú er ég búinn að vera í ræktinni í nokkra mánuði og hefur það gengið nokkuð vel. Að ég hélt. Ég steig nefnilega á vigtina og fannst ekki mikið til um þessi sex kíló. Sex kíló er reyndar töluvert hjá sumum en ekki hjá mér. Ég hef verið nokkuð samviskusamur með mætingu og skil því ekki aukna þyngd upp á sex kíló. Þar sem ég var óánægður með þetta þá vildi ég láta umsjónarmann ræktarinnar heyra það, Fór til hans og tjáði honum óánægju mína og vildi fá afslátt vegna lélegra tækja.Hálf ónýt hlaupabretti sem snúast allt of hratt, kringlótt lóð á allt of þungri stöng,léleg dagskrá á sjónvarpsskjáum og fullt af tækjum sem enginn kann á. Það væri nú ekki vænlegt til árangurs,að standa svona illa að hlutunum. Lét ég hann hafa það óþvegið og snerist á hæl. Þar sem ég gekk á braut, fann ég bankað í hvirfilinn á mér og átti hann víst eitthvað ósagt við mig. Þar sem ég er sanngjarn þá ákvað ég að hlusta aðeins á hann og horfði því upp til hans og beið. Hann byrjaði að afsaka sig og aðra þarna og þeir vildu ekki missa mig eða aðra óánægða út án þess að blablabla..... Eins og ég nenni að hlusta á svona kvak. Hann sagðist hafa verið að fylgjast með mér og ég væri eini maðurinn sem að kæmi með nesti.Nesti? Auðvitað kem ég með nesti,maður verður nú svangur eftir nokkrar mínútur á þessu bretti.Ein samloka er svo sem ekki mikið. "En það er hluti af þessari rækt,æfa,prótein,brennsla og blablabla ". Það er aldeilis að hann getur malað þessi drengur."Ég skal taka þig aðeins fyrir og kenna þér á tækin.....". Ég heyri ekki allt sem hann segir því gyðjan mín gengur í salinn og grípur athyglina. Ég hef verið að skoða hana aðeins og er að spá í spinningtíma með henni. Er búinn að finna út hvenær hún mætir þar. ....."og taka fyrir mataræðið hjá þér". Hann er ennþá að tala. Hvað ég borða? Mat auðvitað. Hann vill fá að vita eitthvað nánar um það. Ókei. Á morgnana fæ ég mér þykkmjólk og kaffi á eftir.Eitthvað á ég eftir af smjördeigskökum frá Ameríku sem þarf að klára og eru þær mjög góðar með kaffi.Dóttir mín gaf mér súkkulaðihúðaðan lakkrís og rúsínur,maður hendir ekki svoleiðis,heldur klárar maður það hægt og rólega á milli mála. Í hádeginu eru nokkrar brauðsneiðar og mjólkurglös.Ef ég skrepp frá þá er ekkert sætt í bílnum,bara piparbrjóstsykur,sterkur.Um eftirmiðdag er oft laumað að mér kleinuhring eða tebollu með súkkulaði. Þetta er vara með lítið geymsluþol og er ég ekki vanþakklátur svo ég klára yfirleitt það sem skammtað er. Eftir handónýtan tíma í ræktinni kemur maður svo orkulaus heim og eins gott að þar er hugsað um mann.Þar rétt nartar maður í eina eða tvær kótelettur og franskar,aspas og gulrætur.Ekki er það nú til að belgja mann út. Svo er smávegis eftir af jólakonfektinu sem tekur mesta gulrótarbragðið. En þegar Friends byrjar þá kemur einn lítill ís sem varla tekur að tala um. Flögur og ídýfa er ekki nema um helgar. Þetta er allt og sumt. "Allt og sumt" galar þjálfinn,"veistu hvað þetta eru margar hitaeiningar......." . Gyðjan er farin að teygja og athyglin beinist að henni og ég heyri ekki lengur í honum. " .... og set ég upp æfingaplan fyrir þig ,fer yfir þetta með þér og hættu að glápa á kvenfólkið,þá fer kannski eitthvað að ganga hjá þér". Hann getur talað út í eitt þessi drengur. Ég jánkaði þessu þó ekki hefði ég heyrt helminginn af því sem hann sagði. Frekjan í þessu liði.
  
En það er best að prófa þetta aðeins lengur,fá smá leiðsögn.Allavega endurnýjaði ég árskortið á leiðinni út.


Fjárplógur.

Er ekki flestum sama hver og hverjir eru stjórnendur í fyrirtækjum sem standa í fjárplógsstarfsemi? Nema þeim sjálfum.
mbl.is Krefst forstjórastarfsins aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimska?

Hér hefur verið ládautt í tvær vikur. Ekki heldur verið merkilegt sem hér hefur verið skrifað. Ekki eins og hjá stórbloggurunum sem að blása sig daginn út og inn með hómópatalausnir á vandamálum lands og lýðs. Einhvern tíma verð ég kannski opinn og upplýstur eins og þessir námuhestar sem að allt virðast vita og þá get skrifað mig hásan og sett mig á stall. Reyndar er það ekki eftirsóknarvert.
 
Þegar ég var krakki var mér sagt að ekki mætti ég stinga járni í innstungu því að þá fengi ég straum.Ekki vissi ég hvað straumur var en fékk smá stuð seinna og skildi þá af hverju ég var varaður við. Í gær bloggaði einn um hryllilegt myndband og varaði fólk við því að skoða það.Sagði undan og ofan um hvað það fjallaði. Myndbandið skoðaði ég að hluta og leist ekki á. Ekki hafðist ég neitt að fremur en í annan tíma þegar þessi drengur bloggar. En ekki er svo með alla.Margir þurftu að stinga járninu í innstunguna og fá straum.Veina eins og kellingar og láta eins og það sé bloggaranum að kenna. Núna hafa sjálfskipaðir siðapostular viljað ritskoða drenginn og láta illum látum í athugasemdadálki hans og vilja þetta myndband burt. Heimskan ríður sjaldnast við einteyming.


Enn í ræktinni.

 

Ég var um daginn að spjalla aðeins um konu sem að ég hitti í ræktinni. Fyrst til að byrja með þá vissi hún ekki að við værum að hittast og lét bara eins og ég væri ekki til. En þetta kom smátt og smátt hjá mér og núna erum við farin að tala saman. Ekki mikið en þó, "góðan daginn" og "það er kalt núna" segi ég og tekur hún bara vel undir. Og er ég að undirbúa meiri og dýpri samræður. Mér finnst ekki gott að tala á meðan ég er á hlaupabrettinu ,móður og andstuttur, það er ekki töff. Ekki heldur í tækjunum,þá er ég að passa að vera grettulaus. Það er eiginlega best á mottunni þegar við liggjum þar saman en við erum ekki orðin svo náin enn en það kemur. Það er frítt kaffi uppi og höfum við fengið okkur kaffi þar oft eftir puðið. Ég er að hugsa um að setjast við sama borð og hún bráðum og byrja þá að spjalla alvarlega við hana. Það er verst ef að ég þarf að lesa einhverjar íslenskar bókadruslur til að vera viðræðuhæfur en ég læt mig hafa það. Líklega byrja ég bara á bílnum hennar, spyr hvaða módel hann er og hvað eyðir hann miklu. Svoleiðis standardar klikka ekki.Ekki fyrir mann með mitt útlit. Svo getur þetta orðið nánara og hver veit hvar maður eyðir gamlárskvöldinu. Ég get alltaf sagt heima að ég verði á vakt með hjálparsveitinni,það virkar alltaf.En ég verð að passa mig aðeins,því ef ég set allt púðrið í þetta í einu þá kannski losna ég ekki við hana aftur ef að hún er ómöguleg.Og kannski á hún krakka sem ég vill ekkert með hafa. Og hvað ef hún á kall? Það er nú meira ófrelsið í þessu kvenfólki, maður leggur sitt til og hvað hefur maður upp úr því? Ekkert nema undirferli. Það hefði nú verið hægt að láta mann vita um þennan kallandskota og þessa ómegð,ég hef annað við tímann gera og vil ekki eyða peningum í rándýrt kaffi til einskis. Heldur hún virkilega að maður sé bara einhver einfaldur vel vaxinn gripur sem að hún getur ráðskast með að vild? Með sand af seðlum tilbúna í kaffihúsasukk? Nei, ég læt ekki bjóða mér svona  meðferð, ég ræði alvarlega við hana á morgun.
   Eða hinn.


Wipeout.

Á árunum 1966 til 1971 var í útvarpinu þáttur sem að hét: Á nótum æskunnar. Þar voru spiluð þau lög sem voru nýjust hverju sinni.Stjórnendur voru tveir, Dóra Ingvadóttir einkaritari,síðar framkvæmdastjóri útvarps og Pétur Steingrímsson tæknimaður og síðar hjá Umferðarráði. Hlustaði ég sem oftast á þessa þætti og tók upp á segulband og á enn sumt af því.Það var ekki mikið um tónlistarþætti á þessum tíma og fylgdist ég vel með þeim þáttum sem að voru og safnaði nýjustu lögunum á band. Á þessum tíma voru það lögin við vinnuna,lög unga fólksins með Bergi Guðnasyni og síðar Hemma Gunn og Gerði G.Bjarklind. Óskalög sjómanna með Eydísi Eyþórsdóttur og óskalög sjúklinga á laugardagsmorgnum með Kristínu Sveinbjörnsdóttur.Hjá Dóru og Pétri var kynningarlagið til að byrja með lagið Wipeout með hljómsveitinni Surfaris frá 1963 en hérna kemur það með hljómsveitinni Ventures. Flottur kallinn á trommunum.


Terry Jacks.

Það er einhver nostalgía í gangi núna. Terry Jacks var frá Kanada og gerði ekki margt vinsælt sem þetta lag. Þetta var vinsælt 1974 og mikið spilað af hljómsveitinni Hafrót í Klúbbnum.Þangað fór maður stundum og átti oftast vísan stað hjá Óskari og Stínu á neðstu hæðinni, þau biðu ekki með borð fyrir templara. Á þessum tíma er maður að mótast sem töffari eins og sjá má á tónlistarvalinu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband